Hvað hvetur mann áfram?

Nú birtast myndbönd og viðtöl hægri vinstri á mbl.is og Smartlandi.  Við stelpurnar erum að fá gífurlegar undirtektir frá fólki sem hvetur okkur áfram og hefur fulla trú á okkur.  Auðvitað skiptir mestu máli að við höfum trú á okkur sjálfar en við værum ekki í þessarri stöðu ef að við hefðum ekki misst hana einhverstaðar á leiðinni.  Hvatning frá vinum og vandamönnum er gífurlega mikilvæg, sérstaklega þegar verið er að leggja hart að sér og þreytan nær tökum eða leiði.  Maður má þó ekki aðeins treysta á aðra til að halda sér gangandi, það hjálpar jú en á ekki að vera það eina sem að kemur þér í gang.

Ég hef reynt ýmislegt undanfarin ár og það sem hvetur mig áfram er í raun og veru tvennt.  Það er að hafa gaman af því sem að ég er að gera og líka tónlist.  Tónlist skiptir mig alveg ótrúlega miklu máli.  Ég myndi ALDREI nenna að fara út að hlaupa ef að ég væri ekki með tónlist í eyrunum.  Ef að ég fer í tíma í ræktinni þar sem spiluð er leiðinleg tónlist, þá er ég vís með að mæta aldrei aftur í þann tíma.

Tónlistin og skemmtilegur tími tvinnast gífurlega saman hjá mér og það skemmtilegast sem að ég hef gert í ræktinni er Body Step, Body Pump og Spinning.  Ég samt hataði body step í byrjun, fannst þetta leiðinlegur tími af því að mér fannst ég ekki hafa úthald í hann en með þrautseigju komst ég í gegnum leiðindin og reyndi síðar að missa ekki af einum einasta tíma enda heillaði tónlistin mig mikið og að dansa í takt við góða tónlist, hver hefur ekki gaman af því?  Body pump hefur alltaf verið í uppáhaldi, ég hef gífurlega gaman af því að lyfta og þessir tímar vinna vel með markmiðum af því leytinu til að þú ræður þinni þyngd og þegar maður þarf að þyngja af því að maður er að verða sterkari, þá er það svo mikill sigur.  Þrátt fyrir að elska þessa tíma þar sem ég hef gaman af því að lyfta, þá hef ég labbað útúr body pump tímum af því að kennarinn var ekki í takt við tónlistina eða af því að tónlistin var leiðinleg.

Þegar ég prófaði spinning í fyrsta skipti, þá hataði ég tímann.. fannst ekkert skemmtilegt við hann, leiðinleg tónlist og að sitja á hjóli og komast ekkert, var ekki heillandi en ég hafði bara ekki fundið rétta tímann fyrir mig.  Þeir eru nefnilega jafn fjölbreyttir og kennararnir eru, ef að þér leiðist í einum tíma, prófaðu þá annan.. þér gætir actually líkað það vel.

Ég þakkaði mikið fyrir þegar að ég komst í spinning í Sporthúsinu og lenti á kennara sem að spilar mína tónlist, sem er 80´s og 90´s.  Bara tónlistin hvatti mig áfram, að halda takti eða bara að detta inn í lagið á meðan maður var að gera eitthvað minna skemmtilegt.  Þarna hafði ég fundið minn tíma og ég var komin svo langt að ég var farin að fara í 2ja klukkustunda spinning tíma, sem að ég stefni á að gera aftur.

Pointið hjá mér með þessum pósti er að þó að vinir og vandamenn styðji við þig og hvetji þig áfram eða sparki í þig, þá er það ekki nóg, það hjálpar auðvitað gífurlega en er ekki nóg því að þú þarft að finna hvatningu hjá sjálfri/um þér til að takast á við það sem að þú hefur lagt þér fyrir hendur.  Veltu þessu fyrir þér, hvað kemur þér í gírinn í dagsdaglegu lífi?  Ég get til dæmis ekki tekið til heima hjá mér nema að blasta tónlist á fullu og gera þetta að einhverju skemmtilegu en ekki bara einni kvöð í viðbót að þurfa að þrífa!  Þetta er ráð til mín og þín sem ert að lesa, mundu bara að treysta á sjálfa þig og finna það sem að þú þarft til að halda þér gangandi, því að það er engum öðrum að kenna en þér hvernig gengur og ekki leggja ábyrgðina á aðra, um að halda þér á réttri leið.

http://www.mbl.is/smartland/heilsa/2016/09/27/hvers_vegna_er_naudsynlegt_ad_fitumaela/

 

 


Markmið!!

Jæja, fyrst að maður er byrjaðu að tjá sig hérna þá er eins gott að fara með þetta alla leið og gera markmiðin opinber, svo að pressan verði á að halda stefnu og standa við orðin sín. Auðvitað er ég þá að tala um að standa við mín orð sem að ég er að gefa sjálfri mér en með því að opinbera það, þá vinnur maður harðar að því þar sem aðrir fylgjast með og vita hvert maður stefnir.

Ég er búin að minnast á markmið mín varðandi matarræðið hér að neðan, að læra að hafa jafnvægi á milli matarræðis og hreyfingu en ekki fara í neinar öfgar sem verða til þess að maður falli og þegar maður veit að slíkt er gerlegt, miðað við reynslu síðustu ára, þá borgar sig að finna betri leið sem að hentar og vonandi stenst.  Maður lærir af mistökum ekki satt?  Svo er sagt en það bara virkar ekkert alltaf þannig.  Hversu oft hefur maður reynt sömu hlutina og reynir að vera jákvæður en það svo springur allt í andlitið á manni þegar líður á.  Stundum verður maður bara að sætta sig við orðinn hlut og reyna að lifa með honum og fókusera að gera þetta bara ekki of erfitt til að standa við.

Önnur markmið sem að ég hef sett mér og flestir setja sér, það er kg talan.  Jú, ég er búin að opinbera að ég er 91.5 kg og síðast þegar ég tók mig á, þá endaði ég í 75 kg og ég var bara nokkuð sátt þar.  Ég er aðeins 165 cm á hæð og miðað við "opinberar tölur", þá ætti ég að vera milli 60 - 65 kg.  Hreinskilnislega sagt, þá held ég að það sé of lág tala fyrir mig.  Ég vil frekar vera aðeins mýkri en kannski skornari og þá er ég ekki endilega að tala um six pack heldur að það móti fyrir vöðvum eða að þeir séu aðeins sýnilegri.  Þegar ég var að lyfta í vikunni, þá vottaði fyrir þríhöfðanum og axkar vöðvum og mér fannst virklega gaman að sjá það og flott og langar að sjá meira af því en þó ekki að ég verði eins og eitthvað búnt, alls ekki.  

Fleiri markmið, sem fæstir vilja ræða um opinberlega en það er í raun útlitið!  Þar sem að ég er hálfgerður "hobbiti", miðað við hæð, þá safnast hratt utan um mann ef að maður gerir ekkert í því og ég hef verið í "mýkri" kantinum síðan að ég eignaðist dóttur mína fyrir 18 árum síðan... já 18 árum og já, ég sef í formalíni.  Ég sé nokkra galla sem að ég myndi vilja vinna í og ég ætla að byrja á því að nefna andlitið.  Ég hef alltaf verið með stórar kinnar en þær verða nú stundum minni um sig þegar að maður gerir eitthvað af viti, þær svo sem angra mig lítið en mig langar í flotta kjálkalínu og aðeins minni háls en ekki bara herðar og höfuð.  Breytingar sjást oft fyrst á andlitinu og það er eitt af því sem að ég vil sjá.  Annað sem að ég vil vinna í er maginn en ég er með smá svuntu vinstra megin og aðeins vinstra megin því að þegar ég var 12 ára gömul, þá fór ég í botnlangauppskurð og ég er með ör hægra megin, sem kemur í veg fyrir að svunta myndist þar.. allavega eins og staðan er á mér í dag.. ég efast ekkert um það að hún kæmi ef að ég myndi sleppa mér meira.  Ég væri til í að geta unnið meira með magann.. ekki að hann hverfi, ég geri mér engar vonir um six pack eins og ég sagði áður en ég væri til í að losna við þessa hálfa svuntu sem að ég er með, hver vill það ekki?

Ég er frekar heilbrigð manneskja, er með góðan blóðþrýsing, í lægri kantinum meira að segja, hef aldrei fengið vöðvabólgu.. já þið verðið bara að trúa mér, er ekki bakveik eða með í hnjánum, þannig að mín markmið eru, svo að ég dragi þau aðeins saman.. að verða svona 75 kg í þyngd, byggja upp meiri vöðvamassa (sem hjálpar til við brennsluna) og vinna á erfiðum svæðum á líkamanum.  Nú veit ég líka að það er erfitt að einbeita sér að einu svæði en með því að vinna markvisst í markmiðum sínum, þá kemur þetta smám saman og það er það sem að ég þarf að horfa á.  Þetta er langhlaup en ekki spretthlaup og ef ég trúi á sjálfa mig og það sem að ég get og ég veit að ég get þetta, þá verður þetta afar dásamlegt ferðalag og ég er ekkert lítið þakklát fyrir aðstoð Mörtu og Smartlands, Sporthússins og Lilju, fyrir að ætla að aðstoða mig, við að uppfylla mín markmið.

 


Matarræði!

Hreyfingin er komin í gang og ég get sagt ykkur það að hreyfa sig allt í einu fjórum sinnum í viku eða oftar vs aldrei, það tekur gífurlega á.  Allir vöðvar í líkamanum finna svo sannarlega fyrir því að það er eitthvað að gerast, allir hversdagslegir hlutir eins og að greiða sér, tannbursta, opna hurðir, standa upp.. eru bara orðnir gífurlega erfiðir en samt svona vont gott.

Annars er það matarræðið sem að ég er að reyna að vinna í núna.  Ég get alveg farið í gífurlega hollustu ef að ég vil, það er minnsta málið.  Mitt vandamál er að gefa mér tíma til að borða.  Ég finn oft til svengdar en er kannski í miðju verkefni og áður en ég veit af eru liðnir nokkrir tímar og enginn matur.  Ég sé það sérstaklega núna, þegar að ég þarf að senda Lilju matardagbækur, hversu lítið ég borða yfir daginn.  Ekkert endilega óhollt en ekkert alltaf það hollasta heldur frekar of sjaldan og það verður oft til þess að líkaminn telur sig vera á leið í svelt og heldur öllu.  Ekki að það gagnist mér neitt að halda í þetta spik, ég er svo mikil kuldaskræfa og þetta spik heldur ekki neinum hita á mér, lélegt í þessu!  

Ég á líka rosalega erfitt með að hætta einhverju, ég hef svo oft litla trú á að það sé aðferð sem að virki en kannski er ég of svartsýn.  Ég til að mynda veit vel að ég er kolvetnis sjúklingur en ég vil samt ekki henda alveg út brauði, pasta, hrísgrjónum og þess háttar.  Ég vil frekar læra að lifa með þessum vörum, hafa stjórn á því hversu mikið og hversu oft ég borða þetta og hvort að það sé á réttum tíma yfir daginn.  Ég hef reynt þetta áður, að taka matvörur út en svo dettur maður stundum inn í þær aftur, þó að allt hafi verið að ganga upp og þá er betra að kunna að meðhöndla þær heldur en að eyðileggja allt fyrir sér enn einu sinni.

Ég hef svo oft reynt einhverjar megranir eða átök og núna er ég að leita að ráðum til að lifa með mat, taka stjórn á honum og hafa jafnvægi á milli hreyfingar og matarræðis.

Ég hef fulla trú á því að ég geti lært það núna enda gífurlega gaman að vera kominn í gang og þegar maður er duglegur, þá vill maður helst ekki borða neitt sem að skemmir fyrir og svo kemur aldur og reynsla inn í þetta líka.  Ég þekki sjálfa mig, þekki mín mörk og veit hvað þarf að gerast, núna þarf ég bara að gera það rétt!


Fyrsta mælingin

Jæja, þá er komið að erfiðasta hlutanum en það er að deila með ykkur tölunum sem að komu útúr mælingunum í gær.  Ég vil hafa þetta alveg upp á borðinu til að svindla ekki og þá verða sigrarnir enn stærri þegar að þeir gerast.

Við fórum í mælingu í gær hjá Lilju og hittum Mörtu ásamt ljósmyndaranum en mælingarnar voru teknar upp og einnig fórum við í viðtal.  Ég mikla það reyndar ekki fyrir mér að þetta hafi verið tekið upp enda lítið feimin við það og vonandi verður þetta til að hjálpa fleirum í minni stöðu við að koma sér í gang og gera þetta rétt.

Ég er sem sagt 91.5 kg og í 35% fitu.  Ég verð samt að segja, þó að tölurnar séu ekki þær bestu, þá er vigtin að sýna mér nýja tölu sem að ég hef ekki séð í þónokkurn langan tíma.  Ég hef verið frekar stöðnuð í vigt í rúmt ár og verið í kringum 93 kg en síðustu tvær vikur hafa hvatt mann til að taka aðeins til og ég tala ekki um að vera að bæta hreyfingu við.  Þannig að ég er strax farin að vinna á markmiðinu mínu og litlir sigrar eru ekkert minni en stóru sigrarnir.

Við ræddum um matarræði en mitt matarræði hefur ekki verið upp á sitt besta.  Ég á yfirleitt eitthvað fljótlegt til, þ.e.s.a. ef að ég borða yfir höfuð en ég á það alveg til að sleppa heilum máltíðum þar sem að ég finn mér ekki tíma... eða réttara sagt, gef mér ekki tíma.  Kolvetni er minn helsti veikleiki, pasta, brauð, drykkjanlegt kolvetni.. þetta er eitthvað sem að ég veit upp á mig sökina síðustu árin.  Ég hef aldrei verið mikill sælgætisgrís en góður matur er eitthvað sem að heillar mig meira.  Gos er varla til í mínum orðaforða enda hætti ég að drekka kók og pepsi árið 2001 og hef ekki snert það síðan, þar af leiðandi er gos ekki vandamál.  Ég get alveg keypt mér smá gos og látið það svo vera í marga mánuði.  Ég drekk helst vatn og reyni að drekka nóg af því en mætti drekka meira.

Það sem að mér finnst mjög gott við þessa breytingu eru ekki bara tímarnir hjá Lilju hedur viðtölin við Mörtu en þar þarf maður að vera hreinskilinn, gagnvart þeim og sjálfum sér og þar liggja mörg vandmál, eins og að fela þær upplýsingar sem að maður lætur ofaní sig og það fær mann líka til að skoða allt betur.

Ég vil helst ekki þurfa að taka nein bætiefni, því að mitt markmið er að reyna að gera þetta á sem einfaldastan hátt.  Að taka matarræðið í gegn og steypa sér í hreyfingu.  Ég nefnilega þekki sjálfa mig og hef tekið átök eða breytingar áður, þar sem ég tók prótein og fleiri aðstoðar efni en svo um leið og átakinu lýkur, þá er það back to normality og það er greinilega ekki að virka fyrir mig.  Fyrir utan það, þá finnst mér fæðurbótaefni oft mjög dýr og nú segja margir, já en þetta er gott og kemur í staðinn fyrir annan mat.  Málið er að ég vil frekar mat en fæðurbótaefni og það er minn vegur.

Ég veit nefnilega um marga sem vilja ekki fæðurbótaefni eða hafa ekki efni á því.  Fólk er með fjölskyldur og þó að þau séu að taka inn fæðurbótaefni, þá er ekki þar með sagt að allir í fjölskyldunni séu á því og þar af leiðandi er þetta orðinn aukakostnaður við innkaup.

Í dag er laugardagur og engin rækt skráð.  Ég var að spá í að skella mér í spinning en hef ákveðið í staðinn að klæða mig í líkamsræktarfötin og taka góða hreingerningu hérna heima en það má ekki gleyma því að það getur verið ágætis hreyfing að ryksuga og skúra og gera það sem þarf.  Bara að skella á góðri tónlist og dansa og syngja með.

Þá er þetta allt orðið opinbert og ég er klár í slaginn.  Ég þigg allar upplýsingar um uppskriftir að þægilegu og hollu fæði og skemmtilegum hreyfingum sem að maður getur innleitt í lífið án þess að borga hönd og hálfan fót fyrir.

Let´s do this!


Fyrsta hindrunin yfirstígin...

Já, það var ekki auðveldur morgun í morgun en fyrsta hindrunin eftir þessa tvo daga í ræktinni með Lilju í Lífstílsbreytingunni hjá Smartland & Sporthúsinu, var að komast fram úr í morgun.  Þetta var alveg leikfimi útaf fyrir sig!  Fyrst reyndi maður að setjast upp, það var alveg gífurlega erfitt og nánast ómögulegt, þá reyndi maður að hossa sér aðeins, virkaði álíka vel og að setjast upp.. þá var bara eitt í stöðunni, að rúlla sér fram úr, kettirnir skildu lítið í þessum brösugangi í mér en þegar ég stóð upp, þá var það bara svakalegur sigur og ég brosti útaf eyrunum. 

Hugsaði með mér, þetta verður góður dagur, mér líður virkilega vel, svaf vel, komst fram úr og já, verður góður dagur.  Svo kom næsta hindrun.. hver kannast ekki við að vera með harðsperrur í lærunum og þurfa svo að setjast á klósettið.  Ég var mikið að spá í að vekja unglinginn og biðja hana um að láta mig síga varlega niður en þar sem að hún sefur á efri hæðinni og það eru stigar þangað upp, þá ákvað ég að takast á við þetta verkefni alveg sjálf, með ýmsum leiðum og aðferðum, að lokum hafðist þetta.  Brosti aðeins yfir þessum sigri, ekki alveg eins mikið og hinum enda aðeins þreyttari eftir tvö svona átök en maður má svo sem alveg eiga von á svona áskorunum þegar maður er að nota vöðva sem hafa ekki sést í fleiri mánuði.

Annars ætlaði ég bara að vera jákvæð og taka þessum degi fagnandi eða svo hélt ég en svo mundi ég skyndilega eftir því að ég átti eftir að klæða mig í buxurnar og SOKKANA!!!

Jæja elskurnar, eigið góðan dag.


Velkomnar harðsperrur!

Þá var það tími nr 2 með Lilju og öllum hinum sexy skvísunum í Sporthúsinu.  Tókum hendur og rass í kvöld og það var sko vel tekið á því, gífurlega er maður í lélegu formi, þrátt fyrir að halda það að að maður sé í betra formi en maður er.. þvílík sjálfsblekking en það er bara upp á við héðan í frá!

Harðsperrurnar eftir gærdaginn létu aðeins bíða eftir sér, hélt í morgun að ég hefði barasta ekkert tekið á í tímanum í gær og fékk smá samviskubit en svo þegar leið á daginn, þá urðu einföldustu verk eins og að standa upp, töluvert erfiðari en þau eru vanalega :)  Þannig að þetta er allt að skila sér og nú er það bara harkan sex.

Hitti gamla spinning kennarann minn eftir tímann í kvöld og það verður ekkert hægt að fela sig núna, hún veit að ég er þarna og ég mun troða spinning tímum inn í dagskránna hjá mér, enda geðveik brennsla og ég tala ekki um þegar teknar eru 2ja tíma brennslur, þá sér maður hvað úthaldið getur verið gífurlega mikið á þrjóskunni.

Annars er mæling á morgun, ekkert gífurlega spennt fyrir þeim hluta.  Það er alltaf erfitt að sjá tölur sem að staðfesta í hvaða stöðu maður er þegar maður veit það alveg sjálfur en stundum eru tölurnar til þess að hvetja mann áfram.  Ég ætla svo sannarlega að heilsa þessarri tölu og kveðja um leið, því að ég stefni á að hitta hana aldrei aftur.

Þannig að þetta er allt komið í gang og vonandi nennirðu að fylgjast með mér fara í gegnum þetta ævintýri, ásamt þremur öðrum hetjum.


Keyrum þetta í gang!

Fór í fyrsta tímann hjá Lilju í dag, þetta var virkilega góður fyrsti tími.  Hæfilega erfiður en klárlega eitthvað sem býður upp á að taka vel á því og ég tala ekki um hvað þetta er frábær hópur sem er þarna saman kominn í þetta skemmtilega verkefni, að breyta um lífsstíl.  Við ævintýrakonurnar fjórar fundum mikinn stuðning frá hinum skvísunum og erum sko algjörlega klárar í slaginn og ætlum auðvitað að verða flottustu klappstýrunar fyrir hinar líka.  Það er svo mikilvægt að hafa gott hugarfar og hafa gott fólk í kringum sig, sem bæði keyrir sig áfram og styður aðra og ótrúlegt, að vera í sal fullum af ókunnugu fólki, sem er að hvetja mann til að gera sitt besta... hvernig getur það klikkað? 

Ég er gífurlega spennt fyrir vetrinum og get ekki beðið eftir að taka vel á því og koma þessu í góða rútínu þarna hjá Sporthúsinu, það er allt hægt ef að viljinn er fyrir hendi.  Fórum einmitt í tíma hjá Anítu Sig eftir púlið og hún ræddi það einmitt, að takast á við afsakanir og neikvæðni.  Ég hef mjög oft afsakað mig af tímaleysi og oft alveg satt en stundum átti maður smá kósýheit fyrir framan sjónvarpið sem hefði að öllu jöfnu nýst betur í ræktinni og hver hefur ekki upplifað það?  Í dag er ég bæði í fullri vinnu, í MBA námi og með heimili og það eru ekki margir lausir klukkutímar í mínum sólahring en með skipulagningu, þá skal þetta hafast.

Ef ég get þetta og allir hinir snillingarnir, þá getur þú þetta líka.  Vertu með og keyrum þetta í gang fyrir veturinn.


Nýr lífstíll

Stór dagur í dag, fyrsti dagurinn sem að ég læt aðeins sparka í rassinn á mér til að komast í gang eftir þónokkra þægilega mánuði en ég er að byrja í lífstílsbreytingu hjá Smartlandi og Sporthúsinu, þannig að maður gerir þetta ekki bara fyrir sig, smá pressa að hafa þetta allt opinbert :)  Fyrsta púlið byrjar strax á morgun og ekki seinna vænna en að keyra þetta í gang.  Verður gífurlegt púl en ég hef fulla trú á að Lilja eigi eftir að halda mér við efnið og ég tala ekki um hinar þrjá snillingana sem að ætla að ganga í gegnum þetta ævintýri með mér.

Við skulum sjá hversu hress maður verður eftir fyrsta tímann.. ég man alveg hvernig það er að fá harðsperrur en hvort að maður sé tilbúin fyrir þær, það er allt önnur ella.  Það var allavega gaman að eiga þessa litlu stund með ykkur, vonandi lifi ég þetta af.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband