Make over

Jæja, þá líður að lokum að þessu ævintýri og ekkert smá heljarinnar ævintýri. 

Ég hef reyndar staðið svolítið í stað síðustu tvær vikur, vann 72ja tíma vinnuviku í síðustu viku og svo er loka keyrslan í skólanum.  Allt komið á fullt og öllu að ljúka og það með hvelli.  Reyni að taka æfingar hér og þar og halda mér við, passa matarræðið og reyna að ná mér aðeins neðar fyrir lokamælingu í næstu viku.

Annars fór ég í smá dekur í vikunni til hennar Maríu á snyrtistofunni Mizu í Nóatúni. Það sem að við skemmtum okkur vel, þetta var æði.  Við höfðum aldrei hist en vældum úr hlátri eins og tvær vinkonur að hittast yfir kaffibolla.  Hún litaði og plokkaði mig og mér sveið aldrei í augun því að það láku tárin sökum hláturs.  Ýmislegt skemmtilegt sem að við ræddum og ég mun klárlega fara aftur til hennar og mæli sko alveg eindregið með henni ef að þið viljið gott dekur.  Hún setti mig líka í andlitsmeðferð og ég veit ekki hvað hún setti mörg lög af kremum framan í mig, ég var allavega mjúk eins og barnarass á eftir og svo fersk, þrátt fyrir að vera svolítið þreytt þessa dagana en það styttist í jólin, þau gefa mér orku.  Bara að skella upp trénu og glingri hingað og þangað, þá verður maður sprækur aftur.

Annars erum við skvísurnar að fara síðan í hárgreiðslu í næstu viku og svo styttist í loka myndatöku, þetta er allt svo spennandi og skemmtilegt.  Vildi að ég hefði getað gefið mig meira í þetta og þeir sem að þekkja mig vita að ég hefði tekið þetta með trompi ef að það væru 36 tímar í sólahring en ég geri mitt besta miðað við mínar aðstæður og vona að ég hafi sýnt fram á það að þetta er hægt þó að tími gefist ekki alltaf.

Síðasta skólahelgin framundan, Smartlands ævintýrið að taka enda en lífstílsbreytingunni auðvitað ekki, þannig að það styttist í gott jólafrí hjá þessarri skvísu.


Nýjar freistingar mæta á svæðið

Þá styttist í jólin, það er nú tími til að borða góðan mat, drekka jólaöl, smákökur, konfekt og ýmislegt góðgæti.  Ég kæmist eflaust í gegnum jólin án þess að borða smákökur og konfekt en góður matur og jólaöl, það er minn veikleiki yfir jólin eins og bjórinn yfir sumarið.  Sérstaklega jólaölið, hvernig er hægt að komast í gegnum mánuðinn án þess að sturta nokkrum lítrum af þessuM dásamlega drykk?  Ég þarf bara að innleiða allt sem að ég er búin að læra af minni lífstílsbreytingu með Smartlandi og Lilju, róa mig aðeins í græðginni og læra að drekka þetta í sopa tali en ekki að þamba eina dós í tveimur sopum.. þetta er bara of gott til að sleppa.  Enda lofaði ég sjálfri mér að hætta ekki neinu, heldur að læra að lifa með hlutunum og nú þarf maður að breyta hugarfarinu og muna að þó að jólin séu að koma að það þarf ekki að eyðileggja allt með því að leyfa sér of mikið yfir hátíðarnar, heldur frekar að trappa sig niður og njóta þegar maður leyfir sér.  Ég viðurkenni nú samt alveg að það hafa þónokkrar dósir verið drukknar af jólaöli en ég er samt að reyna að halda aðeins aftur af mér og hugsa þetta frekar sem einstakar upplifanir frekar en eitthvað sem að ég hef aðgang að yfir alla jólahátíðina.  Svo er það auðvitað líka jólabjórinn en það eru bara til 40 tegundir í ríkinu og mig langar auðvitað að prófa þá alla, þó að ég láti það eftir að prófa nokkra, þá kannski legg ég ekki í þá alla núna.

Annars styttist í annan enda á þessarri lífstílsbreytingu, þó langt frá því að vera hætt, nú er bara komið að því að gera þetta á eigin spýtur og ég væri ekki komin þetta langt ef að ég fengi ekki gígantískan stuðning frá öllum í kringum mig.  Ég veit í raun ekki hvar ég væri stödd í dag ef að þessi lífstílsbreyting hefði ekki komið til, það skipti mig rosalega miklu máli að læra að gera breytingar og setja þær inn í minn upptekna lífsstíl.  Ég er að gera mitt besta en gæti það ekki án aðstoðar, sérstaklega frá lífsstílsstelpunum, Mörtu og Lilju, þær eru auðvitað klappstýrur nr 1 hjá mér og eru að ganga í gegnum þetta á sama tíma en ég. Á þónokkrum öðrum mikið að þakka og langar að nefna nokkra hérna.  Skólahópurinn minn, Team Steam, þau hafa gefið svo mikið eftir þegar að ég þarf að breyta og færa skóla hittinga fyrir lærdóm, það er ekkert lítið sem að þau hafa látið bjóða sér svo að ég gæti tekið þátt í þessu.  Fjöllin mín, klettarnir mínir fjórir, Sigga, Agnes, Stella og Anna Soffía, ef að ég gæti ekki hringt og vælt og pústað, þá væri ég eflaust löngu sprungin og þakka ég þeim vel fyrir stuðninginn.  Fjölskyldan og aðrir vinir hafa fylgt mér eftir í þessu og sent mér baráttukveðjur og bjór stuðninga, ég met það svo innilega.  Ég á gott fólk í kringum mig og þau hafa hjálpað mér að komast af stað og með þeim get ég haldið þessu til þrauta.

Annars er bara að reyna að keyra þetta áfram næstu vikur, er á tólf tíma vöktum, sex daga þessa vikuna, einn frídagur sem að fer í skólanám og heimilisþrif.  Næsta vika verður keyrð í lærdóm og ræktina með viðkomu í vinnunni.  Síðasta skólahelgin þar næstu helgi, þannig að það sér aðeins fyrir endann á þessu brjálæði hjá mér.  Smá jólafrí þó að ég sé að vinna öll jólin en ég næ að njóta frídaganna inn á milli og fagna um áramótin.

Það eru farin 5 kg, 22 cm og 4% í fitu, ég get ekki verið óánægð með það þó að ég hefði viljað geta betur og veit að ég hefði getað gert töluvert betur ef tíminn hefði gefist, ég tek því sem að ég fæ og verð að læra að vera ánægð með litlu sigrana því að þeir leiða til betri árangurs.

Nú skal bara haldið áfram og svo... jú haldið áfram.


Ég er ekki til í að gefast upp!

Þegar ég tók það að mér að fara í gegnum þessa breytingu þá var líf mitt allt öðruvísi, á mjög stuttum tíma tók allt lífið breytingum sem að ég hef þurft að aðlaga mig að og púsla öllum mínum verkefnum saman.  Ég er búin að skipta um vinnu og hún er ekki þessi dagsdaglega 8 - 4 vinna heldur 12 tíma vaktir og þau hafa verið ótrúlega sveigjanleg við mig varðandi skólann en ekki hægt að gera allt og því hefur ræktin setið á hakanum, sérstaklega þegar það eru langar vinnuvikur og skólalærdómur.

Ég fékk spurningu hvort að ég væri búin að henda inn handklæðinu en það er ég svo sannarlega ekki búin að gera.  Ég er komin með góð tök á matarræðinu og hef nánast gefið upp allt kolvetni fyrir utan fljótandi en það er bara smá sem að ég leyfi mér, enda getur maður ekki lokað á allt í einu.

Ég er baráttu manneskja og finnst ég hafa barist fyrir ansi mörgum í gegnum tíðina, núna berst ég fyrir því að standa mig í mörgum verkefnum í einu og kannski var það of stór biti fyrir mig að tyggja en ég er samt ekki tilbúin að gefast upp.  Þegar að ég hef tekið tarnir áður, þá hef ég kannski verið með þrjá bolta á lofti yfir ákveðinn tíma og það hefur virkað hjá mér og taldi ég mig alveg hæfa í að ráðast á öll þessi verkefni þrátt fyrir allar breytingarnar í kringum mig en núna líður mér eins og ég sé með 8 bolta á lofti og sé illa fyrir endanum á því.  Þannig að ég ákvað, að í staðinn fyrir að reyna að halda þeim öllum 8 á lofti, að missa nokkra bolta og vona að þeir myndu ekki brotna illa eða gera mér lífið leitt.  Þeir boltar sem að ég hef misst eru "heimiliið", "fjölskyldan" og "vinirnir", því miður.   

Ég man ekki hvenær að ég ryksugaði síðast og ég bý næstum í unglingadrasli þar sem að tíminn hefur ekki gefist til að halda vel utan um heimilið, ég man varla hvaða dagar eru því að þeir renna í eitt og þá gleymist stundum að versla inn eða hugsa um unglinginn eða kettina.  Ég hef ekki hitt fjölskylduna mína síðan í september og ég meira að segja gleymdi illilega að systir mín ætti afmæli síðsta laugardag og það hefur aldrei gerst áður á minni ævi að ég gleymi afmælisdegi.  Vinina hef ég ekki hitt nema brotabrot en ég reyni að vera dugleg að hringja þegar tími gefst því að þau eru klettarnir mínir og fæ ég mikinn styrk frá þeim.  

Ég verð að fá að aðskilja tvo bolta í þessu samhengi en ég er með einn bolta á lofti gagnvart Smartlands lífsbreytingunni og annan með ræktina, ræktin hefur því miður tekið smá skakkölum líka en ég reyni að koma inn hreyfingu þó að það sé ekki alveg klukkustund í ræktinni með Lilju, ég er þó enn með augun á markmiðinu og neita að gefa þau upp á bátinn.. ég hef barist of mikið fyrir þessu síðustu vikur, þrátt fyrir að það hafi ekki alltaf gengið upp.

Núna eru um þrjár vikur eftir og mælingar í næstu viku.  Ég ætla að steypa mér í ræktina þessa tvo frídaga sem að ég hef frá vinnu þessa vikuna og reyna að púsla öllu saman að ég náði þeim besta árangri sem að ég get á þessum stutta tíma en svo mun ég klárlega halda áfram með mín markmið á mínum tíma.

Ég geri mér grein fyrir því að ég er engin ofurkona en í augum margra er ég það og ósigur er ekki til í mínum orðaforða, ég mun því gera mitt allra besta á þeim tíma sem að ég hef og ekkert minna en það.  Ég næ kannski ekki þeim árangri sem að ég vildi miðað við ef að ég hefði allann tímann í heiminum en allur árangur er sigur í mínum augum og þakka ég öllum þeim sem að hafa stutt mig og hvatt.

Nú berjumst við áfram og tökum þetta með stæl, þetta er ekki búið fyrr en feita konan syngur og hún er ekki neinstaðar í sjónmáli!


Að viðhalda árangrinum...

Það koma tímar eins og flest allir þekkja, þar sem það er yfirþyrmandi mikið að gera.  Síðustu tvær vikur hafa verið svoleiðis hjá mér.  Mikil vinna og gífurlega krefjandi verkefni í skólanum.  Þá þarf að skipuleggja sig mjög vel og þó að ég sé mjög skipulögð, þá stundum situr eitthvað á hakanum.  Því miður hefur það verið ræktin í þetta skiptið.  Ég vann 72 tíma í síðustu viku ásamt því að skila inn verkefnum og læra fyrir önnur verkefni, hitta hópinn minn og stunda námið.  Ég gæti vissulega vaknað töluvert fyrr á morgnana en þetta er bara slíkur tími að mér veitir ekkert af svefn, því að hann er líka mikilvægur í þessu samhengi.  Ég vil helst ekki fara í ræktina seint á kvöldin, því að þá myndast orka sem að kemur í veg fyrir svefn. 

Það sem að ég reyni að gera til að passa að falla ekki og missa niður árangrinum sem að ég hef náð, það er að passa matarræðið enn betur.  Borða minni skammta, reyna að vera dugleg að borða yfir daginn og drekka mikið vatn en fyrir mig skiptir líkamsræktin svo miklu máli, því að ég sé ekki árangur nema að hreyfingin sé með og það getur verið vandamál þegar það eru ekki nægilega margir klukkutímar í sólahringnum.  Ég geri því skynsamlega hluti sem gera kannski ekki mikið en gera þó eitthvað.  Ég nota alltaf stiga þegar að ég get, ég legg bílnum langt frá til að fá smá göngutúr.  Ég bý á fjórðu hæð og hef stundum þunga poka með mér upp, ég reyni að labba eins og ég get og já, reyni að nýta það sem að ég get í minni nálægð.

Þetta er langhlaup og því koma svona tímar, þeir gera það hjá okkur öllum.  Í staðinn fyrir að gefa skít í það og leyfa sér og taka betur á því þegar að tími gefst, er rangt hugarfar.  Ég verð að gera mér grein fyrir því að þegar svona tímar koma, þá verður maður að taka málin betur í gegn.  Þetta er eins og með fjármálin, ef að þú átt minni pening einhvern mánuðinn, þá heldurðu að þér en ferð ekki í verslunarleiðangur í Smáralind.  Same thing!  Það er frekar að leyfa sér eitthvað ef að ræktin er í hámarki, það er allavega mín hugsun.

Ég hef haldið mínum árangri og ætla mér að gera það og mitt markmið er að ná lengra og því hefur ekki verið náð ennþá.  Þess vegna geri ég mitt besta, eins vel og ég get og passa mig að vera meðvituð um það þegar að aðstæður breytast, að taka á því jafnt og þétt og þá ætti þetta að ganga upp hjá mér.


Ímynd

Það er alltaf gaman að fá hrós og hrósin hrannast inn núna, hvort sem að fólk sé í raun og veru að sjá einhvern mun eða bara af því að það veit að maður er að gera eitthvað í sínum málum.  Já, það er alltaf gaman að fá hrós en ég velti því stundum fyrir mér.. þegar einhver kemur til mín og segir að ég líti rosalega vel út núna, greinilega búin að vera að taka vel á því... leit ég þá svona illa út áður?  Lít ég betur út núna af því að ég er að missa nokkur kg eða hvað felst í þessu hrósi?  Sumir segja að ég líti út fyrir að vera hamingjusamari.. jú það má vel vera en ég er útkeyrð vegna vinnu og skóla, myndi halda að það fylgi því smá baugar og þreyta en ég virðist samt líta betur út núna en fyrir nokkrum kg síðan.

Ég er ekki að segja að fólk megi ekki deila því með mér að ég líti betur út, ég fór bara að velta fyrir mér ímyndinni sem fylgir svona breytingum.  Eftir að hafa hlustað á Anítu þá velti ég því fyrir mér hvort að með því að ganga í gegnum svona lífstílsbreytingu, er það af því að maður vill betri heilsu eða er það af því að maður er að falla inn í ímyndina sem að er samþykkt af þjóðfélaginu.  Vera ekki of feit, vera ekki of löt, vera ekki of hitt eða þetta?

Það fer algjörlega eftir því hver er að hrósa mér, hvernig ég lít á hrósið.  Ef að mínir nánustu vinir eða fjölskylda hrósa mér, þá tek ég því sem hóli enda vita þau mínar aðstæður og hvað ég er að leggja á mig.  Ókunnugt fólk, það sér efluast bara þybbna stelpu sem hefur ákveðið að taka loksins á sínum málum, er það hrós?

Ég hef rokkað í þyngd frá því að ég átti stelpuna mína fyrir 18 árum síðan, ég hef átt mína fitu tíma og verið í grennri kanntinum.  Ég hef sjaldnast látið aðra hafa áhrif á mig, mér er nokkuð sama hvað fólki finnst um mig, það mega allir hafa sína skoðun og það snertir mig lítið ef að einhver hefur einhverja skoðun um mig, þannig að ef einhver er að hrósa mér sem þybbnri stelpu að taka á sínum málum, þá er það bara gott og blessað.

Vinir mínir sem hafa þekkt mig í fjöldamörg ár, hafa ávallt sagt mér að ég sé flott eins og ég er, hvort sem að ég er á fitu skeiði eða grennra skeiði, þau líka þekkja mig og tengja minn vellíðan og mína breytingu við persónu mína.  Mér þykir vænt um að fá slík hrós og ég veit að þau munu hrósa mér hvort sem að ég haldi þetta út eða ekki.

Já, þessar vangaveltur mínar, sem að eru nánast útum allt, eiga að snúast um, af hverju skiptir ímynd svona miklu máli?  Og ég vil bara taka það fram að ég er í þessarri breytingu til að læra, bæði á sjálfa mig og hvað lætur mér líða betur og vera heilbrigðari.  Ég er ekki endilega að þessu til að missa hellings kg og enda í stærð 0.

Ég tek öllum þeim hrósum sem að berast, þær eru hvatning en endilega hafið það í huga, næst þegar þið eruð að hrósa einhverjum, á hverju byggist hrósið og er það einlægt?  Það þurfa ekki allir að vera í sama kassanum og við eigum að fagna fjölbreytileikanum.

Þannig að verum dugleg að hrósa óháð okkar hugsunum og skoðanir og munið að fólk lítur ekki betur út af því að það er að detta inn í samþykktar ímyndir, það geta verið svo margar ástæður að baki.

Ef að ég meika engan sense, þá afsaka ég mig með 72 stunda vinnu í síðustu viku, lærdómi og  bjórleysi.

Gleðilegan halló vín dag.


Geðbiluð törn

Já þeir þekkja það sem að vinna mikið eða eru í skóla að það geta komið upp erfiðar tarnir þar sem eitthvað situr á hakanum og/eða ekki tekist á við eins og hægt eða viljað er.

Nú er svakaleg törn í gangi hjá mér, er ég að vinna mína fimmtu 12 tíma vakt, fékk einn frídag í vikunni og hann var algjörlega tekinn í lærdóm.  Ég er líka á 12 tíma vakt á morgun og þri og mið, fæ frí á mán sem að verður algjörlega tekinn í lærdóm og svo skóli á fim, fös og lau í næstu viku.  Ræktin er því bara tekin heimafyrir þessa dagana, þar sem að ég hef ekki orku í að vakna of snemma til að keyra til og frá í ræktina.  Ég er samt að passa mig roslega vel og matarræðið er orðið mjög flott hjá mér.  Ég hef nánast verið brauðlaus í 3 vikur og það er ekki af því að ég er að banna mér það, heldur af því að ég hef reynt að stýra því að hafa kolvetni fyrri hluta dags en þá vil ég oft eitthvað léttara og hef því bara sneytt ómeðvitað hjá brauðinu og er bara nokkuð ánægð með það.

Þannig að matarræðið er að koma, hjá mér eins og ég vil hafa það, fyrir mig.  Ræktin, mætti vera betri en maður verður bara að tímasetja sig rétt.  Svo maður tali nú aðeins um bjórinn, sem að er minn eini veikleiki í augnablikinu.. þá er núna kosninganótt og mig langar svooo í bjór, reyndar búið að langa síðustu daga en er of uppgefin þegar að ég kem heim til að fá mér en ég skal fá mér einn annað kvöld og þá vonandi dregur úr þörfinni, þar til næsta nammi dags.

Elsku þið fólk, sem eruð uppgefin og upptekin eins og ég, það er alltaf hægt að finna glufur í tímanum til að sinna öllu, maður þarf bara að ætla sér það!


Allt á niðurleið

Þá kom loksins að deginum sem við skvísurnar höfum aðeins verið að kvíða en það er mælingadagur en viti menn, þurftum ekki að hafa miklar áhyggjur.  Það er allt á niðurleið hjá okkur öllum og höfum staðið okkur alveg stórkostlega og gaman að segja frá því að við erum allar á sama róli og Lilja ekkert smá ánægð með okkur, sem þýðir að við erum komnar í rétt hugarfar og með langtímamarkmið í huga.

Ég var mjög ánægð með mína mælingu en ég er búin að missa 3 kg og komin niður í nýjan tug (88,4 kg), hallelúja.  Ég lækkaði um tæp 4% í fituprósentu og er líka komin niður í nýjan tug þar en ég er núna 27.86% og ekkert smá ánægð með það.  Ég missti samtals 16 cm og þar af 6 cm um læri og 6 cm um mjaðmir, vöðvarnir eru að bæta á sig og ég hækkaði líka í 175 cm.. ok ekki satt en yfir allt er ég mjög ánægð með þetta og nú er bara að halda áfram í breytingunum.

Annars fórum við í hugarfarsbreytingu hjá Anítu aftur, þar sem hún fór yfir það með okkur hvað það er mikilvægt að hafa hausinn í lagi þegar lagt er í svona langt ferðalag.  Margt sem að ég var sammála og hún leyfði okkur líka að koma með okkar skoðanir en við erum fjórar og fjölbreyttar og fittum ekki í sama kassa, það sem að hentar einni, hentar alls ekki annarri.  Því er gott að skiptast á skoðunum og vita að það er allt í lagi að vera öðruvísi.  Aníta vill að við byggjum upp kynorkuna því að hún kemur brennslunni í gang á morgnana, fannst þetta mjög áhugaverð hugsun og reyndar mjög skemmtileg en ef að þér finnst þú sexy, þá breytist hitastigið í líkamanum á þér og brennslan verður betri.  Þá er bara að vakna á morgnana og mála sig áður en maður lítur í spegil og sjá hversu sexy eða hversu mikil brennslan verður á morgnana en þó ég geri aðeins grín að þessu, þá er ég ekki að segja að þetta virki ekki og hvur veit, gæti bara hreinlega komið mér á óvart.

Annars ræddum við líka með matarræði og ég kom inn á það aftur eins og áður, að ég vil ekki þurfa að henda neinu út eða þurfa að hætta að borða eitthvað, heldur vil ég læra að eiga samleið með mat, matarstærðir og hvenær er best að borða hvaða yfir daginn.  Fyrst að minn veikleiki er kolvetni, þá er það betra fyrir mig að borða það fyrrihluta dags þar sem að ég hef þá tækifæri á að brenna því yfir daginn en ekki fara að sofa með stein í maganum. 

Aðal málið er að, til að takast á við svona stóra breytingu, að gera lífstílsbreytingu, þá þarf hausinn að vera kominn í lag.  Ég geri mér grein fyrir því að ég segi nei við að taka matinn út en það er ekki af þrjósku, það er af reynslu og ég er búin að læra á sjálfa mig og veit hvað ég þarf að gera, ég þarf bara að viðhalda huganum við efnið og þá vonandi kemur þetta allt saman.


Styttist í mælingu

Þá styttist í fyrstu mælinguna eftir fyrstu fjórar vikurnar.  Margar skvísurnar velta fyrir sér hvað hefur gerst á þessum fjórum vikum og misjafnar tilfinningar fyrir því að fara aftur í mælingu.  Ég er samt mjög vongóð og sé smá mun frekar en að finna fyrir honum.  Tók eftir því í ræktinni um daginn þegar við vorum að lyfta að vöðvarnir í höndunum eru aðeins að koma aftur og byrjaðir að tónast pínu.  Finnst ekkert eins flott og sjá þríhöfðan eða axlarvöðvana sperrast við átökin!  Finn aðeins fyrir mun á fötum en kannski ekkert svo marktækt, frekar í hausnum á mér heldur en sjónrænt.  

Annars hef ég alltaf haft það fyrir reglu að vigta mig á morgnana og tel ég það vera ein af ástæðunum af hverju ég hef aldrei leyft sjálfri mér að fara upp í þriggja stafa tölu, maður panikar þegar talan fer hækkandi og breytir aðeins til og þá fer talan niður en svo heldur maður bara áfram, þannig að þetta er ferlegt jójó dæmi.  Annars hef ég aldrei verið eins nálægt þriggja stafa tölunni og sumarið 2012 þegar ég bjó á Ísafirði, þá var mikið unnið og þetta sumar var geggjað veður og þá var alltaf farið á barinn, setið í sólinni og hringt heim til að heyra í fólkinu sínu... það hefði því ekki átt að vera áfall þegar vigtin sýndi 98,9 kg einn daginn.  Þá fór panik módið í gang og breytingar áttu sér stað og náði mér niður í 85 kg en já, svo missir maður sjónar af þessu paniki og ferlið fer í gang að nýju.

Þannig að ég hef verið að fylgjast með vigtinni minni á þessu lífstílsbreytingar ferli og talan er að fara niður.  Auðvitað myndi maður vilja sjá hana fara hraðar en þar sem að við erum að lyfta svo mikið, þá eru að mótast vöðvar og þeir eru jú þyngri en fitan og brenna fitunni hraðar, þannig að ég er sátt og hef enn tíma til að ná góðum árangri í fyrstu mælingunni.


Breyttur lífsstíl - Tímaleysi

Mig langar aðeins að draga fram aðal áhyggjuefni flestra sem að vilja taka lífstílinn sinn í gegn og það er tímaleysi.  Ég þekki það vandamál allt of vel og hefur það oft verið mín afsökun til að koma mér frá þessu en tíminn er ekki vandamálið, það er alltaf hægt að finna tíma en það þarf að vera tími sem að hentar þér vel svo að allt gangi upp.

Núna er ég að upplifa það að tímaleysi er að hrjá mig og það veldur mér vandræðum.  Ég hef nefnt það áður að ég er í fullri vinnu og MBA námi og svo að vinna í að breyta lífsstílnum mínum en eftir fjórar vikur, þá sé ég að dagskráin mín, eins og hún er í dag, er alls ekki að henta og reyndar að bægja mér frá því að vilja halda þessu út.  Mitt vandamál er það að þegar ég hef tekið mig á og farið í ræktina, þá hef ég alltaf farið á morgnana því að það hentar mér.. ekki það skemmtilegasta í heimi að vakna kl 5:30 en þá er ræktin frá og vinnudagurinn gengur sinn gang og svo get ég gert það sem að ég þarf að gera, hvort sem að það sé eitthvað verkefni eða bara fara heim og sjá um heimilið.

Tímarnir sem að við skvísurnar förum í eru allir kl 17:30, hentar mörgum vel en alls ekki mér.  Ég er búin að vinna milli 16 og 17, svo er það umferðin.. já já, róleg.. er ekki að búa til fleiri afsakanir, heldur að útskýra.  Ég er alltaf stressuð í eftirmiðdaginn útaf tíma.. að komast úr vinnu í ræktina og svo er það skólinn... það er ekki alltaf skóli á kvöldin en það eru mörg verkefni sem að þarf að vinna úr og þetta eru hópaverkefni og minn hópur ákvað að hittast strax eftir vinnu svo að við séum ekki alltaf langt fram á kvöld en eftir að ræktin bættist inn í, þá get ég aldrei mætt fyrr en um kl 19.  Hópurinn minn hefur sýnt mér mikinn skiling og met ég það mikils en samviskubitið er farið að naga mig í allar áttir.  Ég er stressuð í bílnum að reyna að komast á milli staða, ég er með samviskubit að mæta ekki á sama tíma og hópurinn minn, ég er með samviskubit að reyna að komast fyrr úr vinnu til að losna við umferð, ég er með samviskubit í ræktinni ef að ég þarf að beila útaf öðrum verkefnum.  Þessi tími bara hentar mér alls ekki.

Þá er nú gott að vera með skilningsríkan þjálfara sem að sér þetta ekki sem vandamál heldur kemur með lausnir.  Ég talaði sem sagt við Lilju og sagði henni hreint út sagt að ef að ég væri ekki í þessum lífsstíl opinberlega og bara á eigin vegum, þá væri ég eflaust hætt útaf þessum tímum, morgnarnir henta mér betur. Hún fann þá út það ráð að taka viku og viku í senn, þegar ég kemst, áhyggjulaus, í tíma kl 17:30 þá er það frábært og þá daga sem að ég kemst alls ekki vegna vinnu eða skóla, þá fer ég í morguntíma eða hitti hana á morgnana.  Þetta gaf mér strax von um að þetta getur virkað en það þarf bara að henta.

Pointið mitt með þessu er að ef að þú ert í tímaleysi, þá þarftu að finna tíma sem að hentar þér og þínum lífsstíl.  Tímarnir kl 17:30 henta bara ekki mínum lífstíl og ég vil ekki þurfa að vera með samviskubit yfir að gefa ekki 100% í það sem að ég hef tekið mér fyrir hendur og því held ég þessu til þrauta.. auðvitað en meira hannað fyrir mig og því sem að hentar mér.  Það verður leiðinlegt að komast ekki í alla tíma með stelpunum enda frábært að æfa með þeim og frábær hópur en þetta er lífsstílsbreytingin mín og ég verð að hafa mig í fyrsta sæti og hugsa hvað hentar mér best.

Fyrir utan þessar pælingar þá gengur nokkuð vel, matarræðið er að lagast og það er mikill stuðningur í kringum mig.  Var í skólanum um daginn og við vorum að vinna verkefni í tveimur hópum, annar hópurinn mætti með súkkulaði bita kökur sem var auðvitað frábærlega vel boðið en ég þáði ekki.  Við tókum smá pásu og þegar við komum öll saman aftur, þá var búið að setja vínber inn í herbergið og var beðist afsökunar á tillitsleysinu gagnvart opinberu lífstíls bjórdrykkju stelpunni (broskall)

Freistingarnar eru auðvitað allstaðar og það er mín hugsun að betra er að leyfa sér smá frekar en að detta í það á einum degi, það virkar nefnilega aldrei.  Í dag voru kökur í skólanum og einn nemandinn átti afmæli, kökurnar freistuðu mín lítið, litu vel út jú en freistingin var lítil og á meðan allir gúffuðu í sig kökur, þá japplaði ég á vínberjum og viti menn, ég var bara virkilega sátt við sjálfa mig og engin eftirsjá en ég var samt búin að ákveða það að ef að ég vildi virkilega köku, þá væri skynsamlegra að fá sér smá smakk frekar en að bíða svo eftir nammi deginum og gera þetta á öfgafullan hátt.

Við verðum jú öll að muna, að lífsstílsbreyting er langtímahlaup en ekki spretthlaup og það þarf að taka ákvarðanir á hverjum degi, stundum eru þær góðar og stundum slæmar en því færri sem þær slæmu verða, því nær verður maður sínu markmiði og þá er maður á betri leið í átt að góðu og heilsusamlegu lífi.


Ég er ekki alki fyrir fimm aura...

Nú birtist hvert myndbandið af fætur öðrum og alltaf tengist mitt matarræði við bjór.  Vildi nú samt segja að ég er ekki eins slæm og ég hljóma.  Sumrin eru kannski erfiðust en hverjum finnst ekki gott að fá sér kaldan þegar sólin skín sínu breiðasta og flott tónlist og bara stemmari.  Ég viðurkenni það að það er ekkert voðalega heillandi að setjast út á svalir í svona haustveðri og fá sér einn kaldan.  Þetta er meira félagstengt á veturnar og það gerist sjaldnar en á sumrin, allavega þennan veturinn enda vinna eða skóli aðra hverja helgi.

Vildi nú bara allavega hrista af mér þennan alka stimpil en hef auðvitað gaman og finnst gott að fá mér kaldan, þó þeir séu ekki alveg í forgangi hjá mér.

Annars gengur mjög vel í ræktinni, ég fæ harðsperrur í hina ýmsu vöðva og aldrei alveg laus við þær, það bætast alltaf einhverjar við þegar aðrar fara og við erum farnar að taka betur á og Lilja hætt að tríta okkur eins og börn í bubble plasti.  Á síðustu æfingu kom meira að segja Marta og púlaði með okkur, það fannst mér vel gert.. hún veit þá alveg hvað við erum að ganga í gegnum og kann þetta alveg enda lítur hún mjög vel út.

Matarræðið er í vinnslu, ætli það sé ekki minn veikleiki.  Ég er mjög vel meðvituð um hvað ég þarf að gera og breyta og bæta en ég er ekki nógu ákveðin í að koma þessu í réttan farveg.  Ég reyni að fá mér hafragraut á morgnana og svo er hádegismatur og ég er ferleg í að muna eftir milli máltíðum og stundum kemur kvöldmaturinn og það er misjafnt á hvaða tíma hann kemur.

Smá innskot inn í mitt daglega líf.  Ég er mætt í vinnuna rúmlega 8, stundum sit ég á skrifstofunni en stundum er ég á algjörum þvæling, hvort sem er á hótelinu sjálfu eða út í bæ, vinnudeginum lýkur svo milli 16 og 17, þá er brunað beint í ræktina sem er í Sporthúsinu, hún byrjar kl 17:30 á mán, mið og fim og varir í klukkustund, ef að ekkert breytist og þá þarf maður svo yfirleitt að bruna í HR þar sem að skólahópurinn bíður mín ásamt einhverjum skemmtilegum verkefnum.  Misjafn hvað við erum lengi að en marga daga er ég ekki að koma heim fyrr en rúmlega kl 22 og þá á eftir að setja í vél, vaska upp, elda mat, búa til plan fyrir morgundaginn, hafa föt til, sinna unglingnum (ef að hann er heima), athuga hvort að kettirnir séu á lífi og svo þarf maður víst líka að einbeita sér að því að sofa.

Annars er ég að byrja í nýrri vinnu í næstu viku, kannski verður þetta aðeins auðveldara þá en þetta er 12 tíma vaktarvinna og þá koma einhverjir frídagar inn á milli en þá verður önnur hver helgi skóli og hin hver vinna og þá eflaust minnkar bjórdrykkjan af sjálfu sér (broskall)

Þetta er allt work in progress og K-ið í K Svava stendur fyrir Keppnis, þeir sem að mig þekkja, vita að ég er sjálfri mér verst og reyni að leggja allt mitt af mörkunum.  Fjórða vika að byrja í dag, mælingar í næstu viku.. nú keyrum við þetta í botn.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband